Innlent

Traktorsgröfukarl klárar Lyngdalsheiðina

Ofvaxinn traktorsgröfukarl, eins og hann kallar sjálfan sig, hefur tekið að sér klára nýja veginn yfir Lyngdalsheiði, og stefnir að því að ljúka verkinu fyrir 1. september næsta haust.

Verktakafyrirtækið Klæðning hóf í ágúst í fyrra að leggja þennan fimmtán kílómetra veg milli Þingvalla og Laugarvatns en gafst upp snemma í vor þegar Lýsing hirti vinnuvélarnar vegna vanefnda. Verkið lá niðri í fjóra mánuði þar til í ágústbyrjun að A.Þ. vélaleiga tók upp þráðinn, eftir að Vegagerðin samþykkti að hún tæki yfir verksamning Klæðningar. Sautján manna vinnuflokkur með jafnmargar vinnuvélar keppist nú við svo unnt verði að standa við upphaflega verkáætlun.

Auðunn Þór Almarsson, framkvæmdastjóri A.Þ. vélaleigu, segir að verkið hafi gengið mjög vel á þeim þremur mánuðum sem þeir hafi unnið þarna og veðrið hafi leikið við þá. Búið sé að keyra út um 80 þúsund rúmmetra.

Raunar voru ýmsir farnir að óttast að verkið myndi stöðvast í einhver ár. En nú vindur því hratt fram, austanmegin eru þeir að nálgast Laugarvatn en vestanmegin vantar enn fjóra kílómetra að Þingvallavegi. Verktakinn segist standa við dagsetningu verkloka, 1. september á næsta ári.

Auðunn Þór kemur úr Njarðvík og hann kennir fyrirtækið við upphafsstafina. Það hafi byrjað fyrir tólf árum á einni lítilli traktorsgröfu og nú sé það búið að stækka upp í þetta. Það megi því segja að hann sé ofvaxinn tratorsgröfukarl.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×