Innlent

Lögregla svipti barn frelsinu

Lögreglumenn grunuðu piltinn um ölvun nóttina áður, og að hann hafi boðið fólki fíkniefni.
Fréttablaðið / pjetur
Lögreglumenn grunuðu piltinn um ölvun nóttina áður, og að hann hafi boðið fólki fíkniefni. Fréttablaðið / pjetur
Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða pilti 70 þúsund krónur í miskabætur vegna þess að lögreglan í Borgarnesi lét hann fara í þvagprufu á lögreglustöð þrátt fyrir að hann hefði þegar mælst allsgáður í öndunarprófi.

Pilturinn var sautján ára þegar hann var stöðvaður á bensínstöð í Borgarnesi eftir hádegi í janúar síðastliðnum. Lögreglumenn fullyrtu að þeim hefði borist utanaðkomandi ábending um að pilturinn hefði verið ölvaður kvöldið áður og einnig falboðið fíkniefni.

Pilturinn veitti öndunarsýni á staðnum og mældist ekki undir áhrifum. Engu að síður óskuðu lögreglumennirnir eftir því að pilturinn kæmi með þeim á lögreglustöðina og gæfi þvagsýni. Hann gekkst við því, að eigin sögn vegna þess að hann þorði ekki að neita af ótta við að vera þá beittur valdi. Á lögreglustöðinni beið pilturinn síðan í tvo tíma eftir að geta gefið sýnið.

Í niðurstöðu dómsins segir að sú ákvörðun lögreglumannanna að flytja piltinn á lögreglustöð hafi verið í engu samræmi við tilefnið, og að pilturinn hafi því á ólögmætan hátt verið sviptur frelsi sínu.

Einnig er gerð athugasemd við það að ekki hafi verið haft samband við forráðamenn piltsins, enda var hann ólögráða. Lögreglumennirnir sögðu það vera venju í umdæminu að kalla ekki til foreldra þegar ungir ökumenn væru grunaðir um brot undir stýri. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×