Innlent

Heyrnalausir kalla á úrbætur

Félag heyrnarlausra hvetur stjórnvöld til að fylgja eftir tillögum nefndar um úrbætur á högum þeirra og ganga frá miskabótum við þá sem urðu fyrir ofbeldi í Heyrnleysingjaskólanum á sínum tíma.

Hópur úr Félagi heyrnarlausra afhenti forsætisráðherra áskorun í dag þar sem lýst var ánægju með að skýrsla vistheimilisnefndar á vegum forsætisráðherra hafi verið gerð opinber. Skorað er á forsætisráðherra að fylgja niðurstöðum skýrslunnar eftir. Minnt er á að enn enn sé óbættur sá miski sem nemendur urðu fyrir við dvöl sína í Heyrnleysingjaskólanum.

„Og núna viljum við horfa til framtíðar og þessar blöðrur eru tákn um þann svarta blett sem hefur verið í sögu heyrnarlausra. Og með því að lyfta þeim til lofts viljum við kveðja fortíðina og horfa björtum augum fram á veginn," sagði Berglind Stefánsdóttir aðstoðarskólastjóri Hlíðarskóla, áður en hún bað Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra að sleppa fyrstu blöðrunni við stjórnarráðið í dag.

Jóhanna sagðist taka áskorun Félags heyrnarlausra fagnandi og hét því að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, og Berglind Stefánsdóttir aðstoðarskólastjóri Hlíðarskóla, sást hér fyrir utan stjórnarráðið í dag. Svandís starfaði áður við samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hún var auk þess kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×