Erlent

Tveir látnir vegna skæðs lungnasjúkdóms í Kína

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Tveir hafa látist úr lungnasjúkdómi í norðvestur Kína en yfirvöld þar hafa sett heilt bæjarfélag í einangrun þar sem á annan tug manna hafa greinst með bráðsmitandi og banvænan lungnasjúkdóm. Sjúkdómurinn er af sömu gerð og svarti dauði sem dró hátt í 25 milljónir manna til dauða á miðöldum. Þetta kemur í kínverskum fjölmiðlum í morgun.

Um er að ræða 10 þúsund manna bæjarfélag en búið er að girða svæðið af og sérfræðingar verið sendir til að kanna aðstæður.

Skrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kína sagðist vera í nánu samstarfi við kínversk stjórnvöld og að aðgerðir stjórnvalda væru viðeigandi.

Þá sagði talsmaður stofnunarinnar að engir sérfræðingar á vegum hennar enn væru á svæðinu en fylgst væri náið með gangi mála. Hann bætti við að talsverðar áhyggjur væru vegna ástandsins enda um bráðsmitandi og banvænan sjúkdóm að ræða.

Kínversk stjórnvöld segjast hafa fulla stjórn á útbreiðslu sjúkdómsins og óttist ekki að farsótt brjótist út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×