Lífið

Heldur á klósetti upp á fjall

Eberg burðast með klósett upp á fjallstind í sínu nýjasta myndbandi.
Eberg burðast með klósett upp á fjallstind í sínu nýjasta myndbandi.

Tónlistarmaðurinn Eberg burðast með klósett upp á fjall í sínu nýjasta myndbandi við lagið The Right Thing To Do.

„Það var mjög heimskulegt að labba upp á fjall með þetta. Þetta var djöfull erfitt,“ segir Eberg, sem segir árangurinn þó erfiðisins virði. „En það var heimskulegt að fara ekki á fjall sem hægt er að keyra upp á.“ Fjallið sem um ræðir er Lambafell í Þrengslum.

„Þetta er raunasaga drengs sem er að leita að fullkomnum stað til að losa um. Hann er búinn að safna í marga daga,“ segir Eberg um myndbandið og kímir. „Þetta er ferðamaður sem ferðast með klósett til Íslands. Hann fer svona túristarúnt í gegnum Leifsstöð, í rútuna og á Hótel Sögu. Hann er alltaf með þetta asnalega klósett með sér. Svo vaknar hann daginn eftir uppi á fjalli og þá er hann búinn að finna staðinn sinn.“

Það var Árni Þór Jónsson, eða Árni Zúri, sem tók upp myndbandið, sem kemur út á næstu vikum. Hann hefur á ferli sínum unnið fyrir flytjendur á borð við Damien Rice, Bang Gang, Ampop og Singapore Sling.

The Right Thing To Do er tekið af nýjustu plötu Ebergs, Antidote, sem kom út á dögunum. Fyrsta upplag hennar, sem hljóðaði upp á eitt þúsund eintök, er þegar uppselt hér á landi og er annað væntanlegt. Viðræður eru jafnframt hafnar við franskt fyrirtæki um að dreifa plötunni þar í landi. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.