Innlent

Biskup: Við erum löskuð þjóð

Herra Karl Sigurbjörnsson.
Herra Karl Sigurbjörnsson.
Fjölmennt var við hátíðarmessu í Dómkirkjunni snemma í morgun þar sem Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, predikaði.

Karl Sigurbjörnsson, biskup, óskaði hátíðargestum gleðilegra páska í Dómkirkjunni í morgun. Við hátíðarmessuna var frumfluttur sálmur sem faðir biskups, Sigurbjörn Einarsson biskup, þýddi skömmu fyrir dauða sinn.

Í predikuninni sagði herra Karl Sigurbjörnsson meðal annars að við hefðum lifað hrun og ósigra hér á landi og mörgum sé það þungt og finnist við illa svikin.

„Peningahyggjan lék okkur grátt. Við urðum óþyrmilega fyrir barðinu á tortímandi hroka græðgi, fýsna og valds. Nú erum við löskuð þjóð, pólitískt og efnahagslega. Löskuð. Grundvallartraustið á stofnanir þjóðfélagsins hefur beðið alvarlegan hnekki. Tugþúsundir horfa upp á atvinnu og afkomu, hús sín og heimili og fyrirtæki í voða. Mörg okkar eru sorgmædd, sár og reið,“ sagði biskup.

Karl sagði von okkar ekki vera bundna við jarðneska leiðtoga, regluverk, alþjóðastofnarnir, valdhafa, pólitík. „Þó við getum ekki án þess verið og þurfum nauðsynlega á að halda, á leiðtogum, valdhöfum, pólitík þar sem forsendurnar eru réttar, hjartað á réttum stað, eins og sagt er, sem dómgreindin, viskan, aflið, styðst við hinar sönnu dyggðir og viðmið, sem rétt eru og sönn.“

Prédikunina má lesa á vefnum trú.is og þar er einnig hægt að hlusta á hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×