Innlent

Tapaði fyrir skattstjóra - áfrýjar til Hæstaréttar

Breki Logason skrifar
Borgar Þór Einarsson
Borgar Þór Einarsson

Borgar Þór Einarsson lögfræðingur tapaði í dag máli gegn skattstjóranum í Reykjavík. Borgar stefndi skattstjóra og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að skattsjóranum í Reykjavík væri óheimilt að leggja fram til sýnis álagningaskrá þar sem tilgreindir eru þeir skattar sem lagðir hafa verið á sig samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Borgar stefndi skattstjóra þrátt fyrir að í gildi séu lög um tekjuskatt sem heimila að álagningaskrár séu lagðar fram til sýnis.

„Ég vissi alltaf að þetta yrði ekki auðsótt," segir Borgar sem sjálfur sótti málið.

Borgar segir að í raun þurfi mjög mikið til til þess að héraðsdómari, semsagt lægra dómsstig, víki til hliðar lögum þannig að það stangist á við stjórnarskrá. Slíkt gerist yfirleitt í Hæstarétti.

„Ég virði dóminn svo langt sem það nær en auðvitað er ég ekkert sammála niðurstöðunni."

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að löggjafinn meti það þannig að lögin standist stjórnarskrá. Borgar ætlar hinsvegar að láta reyna á hvort Hæstiréttur sé sammála því.

Borgar segir að rétta leiðin til þess að berjast fyrir málstað sem þessum sé að leita til dómstóla.

„Það er eðlilega leiðin í réttarríkinu að skera úr um svona ágreiningsmál hjá dómstólum. Það er hinsvegar tregða hjá héraðsdómi og því verður látið reyna á þetta í Hæstarétti."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×