Innlent

Segja lítil umhverfisáhrif af stækkun

Stækka á virkjunina með viðbyggingu við stöðvarhúsið og fleiri borholum.Mynd/Sigurður H. Magnússon
Stækka á virkjunina með viðbyggingu við stöðvarhúsið og fleiri borholum.Mynd/Sigurður H. Magnússon

Bæjarráð Reykjanesbæjar segir mjög gott að fyrirhuguð stækkun Reykjanesvirkjunar raski litlu af óhreyfðu landi. VSÓ ráðgjöf hefur unnið frummatsskýrslu um stækkun virkjunarinnar og telur Reykjanesbær skýrsluna fullnægjandi. Notast á við núverandi borplön við gerð nýrra borhola og nýta núverandi aðkomuleiðir. Stækka á stöðvarhús um tvö þúsund fermetra og byggja sjö hundruð fermetra skiljustöð mjög áþekka þeirri sem fyrir er.

„Nýjar lagnir frá borholum verða að mestu leyti í sömu lagnastæðum og allt þetta veldur því að rask og sjónræn áhrif vegna framkvæmdanna verður í lágmarki,“ segir í umfjöllun bæjarráðsins.

Fram kemur að draga eigi sem mest úr neikvæðum umhverfisáhrifum. „Þar ber helst að nefna pækil­virkjun sem nýtir jarðhitavökvann betur og dregur úr þörf á upptöku úr jarðhitageyminum. Með því að nýta núverandi mannvirki og leitast við að staðsetja ný á röskuðum svæðum eru lágmörkuð umhverfisáhrifin. Einnig er gert ráð fyrir niðurdælingu affallsvökva aftur niður í jarðhitageyminn til að draga úr þrýstingslækkun í borholum. Reiknað er með að loftmengun í byggð verði svipuð og hún er núna.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×