Innlent

Komu saman við Vogaafleggjara

Undirbúningshópurinn kom saman við Vogaafleggjara í hádeginu ásamt bæjarstjórum og oddvitum í bæjarmálunum af svæðinu.
Undirbúningshópurinn kom saman við Vogaafleggjara í hádeginu ásamt bæjarstjórum og oddvitum í bæjarmálunum af svæðinu.

Undirbúningshópur Keflavíkurgöngunnar 2009 kom saman við Vogaafleggjara í hádeginu ásamt bæjarstjórum og oddvitum í bæjarmálunum af svæðinu. Undirbúningshópurinn saman stendur af hópi Suðurnesjamanna með ólíkar stjórnmálaskoðanir. Ætlunin er að vekja athygli á atvinnumálum á Suðurnesjum.

„Suðurnesjamenn eru ekki að biðja um að stjórnvöld standi að atvinnubótavinnu, en við óskum eftir því að þau gangi í takt við okkur og greiði leiðir fyrir þeim fjölbreyttu verkefnum sem við höfum undirbúið á undanförnum árum. Mörg þeirra eru nú þegar tilbúin til að veita þúsundum manna atvinnu og skapa Íslandi auknar gjaldeyristekjur. Það er krafa okkar að stjórnvöld greiði þessum verkefnum leið og styðji við þau," segir í tilkynningu undirbúningshópsins.

Keflavíkurgangan 2009 verður haldin næstkomandi sunnudag klukkan 11:30. Gengið verður frá Vogaafleggjara að Kúagerði sem er um 10 kílómetra leið. Stutt ávarp verður klukkan 14 í gryfjunni í Kúagerði.

„Þar munu forsvarsmenn allra stjórnmálaflokka mæta okkur á miðri leið og taka við áskorun okkar. Rútuferðir að Vogaafleggjara verða frá öllum sveitarfélögum kl. 11 og þeir sem ekki treysta sér til að ganga geta áfram setið í rútum eða komið á bílum og mun bílalest fylgja göngunni. Hægt verður að komast inn í gönguna hvenær og hvar sem er á meðan á göngunni stendur. Einnig verður hægt að keyra beint að vegamótum inn á Vatnsleysuströnd og aka afleggjarann að Keili, að fundarstað," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×