Lífið

Pjattrófa dælir bensíni

Sjaldan hefur önnur eins fegurð mætt þeim sem vildu taka bensín og í gær. Ungfrú Vesturland segir bensínafgreiðsluna enga stjarneðlisfræði en þó var vissara að hafa starfsmann N1 til aðstoðar.fréttablaðið/anton
Sjaldan hefur önnur eins fegurð mætt þeim sem vildu taka bensín og í gær. Ungfrú Vesturland segir bensínafgreiðsluna enga stjarneðlisfræði en þó var vissara að hafa starfsmann N1 til aðstoðar.fréttablaðið/anton

„Þetta gekk ljómandi vel. Og við stóðum okkur allar vonum framar,“ segir Aníta Lísa Svansdóttir – ungfrú Vesturland og hugsanlega verðandi Ungfrú Ísland.

Í gær fóru keppendur í Ungfrú Ísland-keppninni á nokkrar bensínstöðvar til að dæla bensíni, athuga með olíu á bílum viðskiptavina N1 og setja rúðupiss á þá bíla sem þess þurftu við. Allt til stuðnings góðu málefni en þessi gjörningur var liður í fjáröflun til styrktar langveikum börnum. Safnað var rúmlega tvö hundruð þúsund krónum og N1 lagði hundrað þúsund krónur á móti þannig að rúm þrjú hundruð söfnuðust.

Aníta Lísa var hress og segist ekki vera vön bensínafgreiðslu eða því að athuga með olíu á sínum eigin bíl. „Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta er svo sem engin stjarneðlisfræði. En þetta var frekar fyndið. Við vorum allar í gallabuxum á háum hælum. Og ég var pjattrófa við þetta. Þurfti hanska. Vildi ekki maka olíu á mig og fötin. Þannig að þetta var fyndin sjón,“ segir Aníta fjallhress.

Keppnin Ungfrú Ísland er eftir viku eða 22. þessa mánaðar. Brjálað stress að sögn Anítu sem segir um að gera að hafa gaman af þessu. „Þetta er ótrúlega skemmtileg lífsreynsla og allt öðruvísi en undankeppnirnar. Miklu fagmannlegri undirbúningur og stífar æfingar.“ Aníta er Skagastelpa og í fótbolta, starfar sem þjálfari hjá Val en er nýlega gengin til liðs við FH-inga. Og er ánægð með það – segir gaman að koma að því liði til að byggja upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.