Innlent

Veiða síld fyrir utan sjúkrahúsið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Síldarveiðar. Mynd/ Hafrannsóknarstofnun.
Síldarveiðar. Mynd/ Hafrannsóknarstofnun.
Síldveiðiskipið Faxi RE er nú á veiðum í Breiðafirði og að sögn skipstjórans, Alberts Sveinssonar, er síldin erfið viðureignar. Skipið fór til veiða síðastliðið fimmtudagskvöld og í gær var Faxi kominn með um 950 tonna afla. Stefnt er að því að ná fullfermi eða rúmlega 1500 tonnum en Albert segir að það ætli að reynast erfiðara en hann átti von á.

„Aðstæður hafa verið vægast sagt leiðinlegar. Hér hefur verið strekkingur allan tímann og vindurinn stendur á land. Síldin heldur sig mjög nærri landi og hún gefur sig aðeins til eftir að það tekur að birta á morgnana og fram eftir degi en leið og það fer að skyggja þá dreifir hún sér og er óveiðanleg," er haft eftir Alberti á vef HB Granda. Að hans sögn hefur hann verið með skipið að veiðum í nágrenni Stykkishólms.

„Við höfum verið hér sitthvoru megin við Hólminn, á Kiðeyjarsundinu og Breiðasundi og eitt kast tókum við fyrir framan sjúkrahúsið, ekki fjarri landi. Í dag höfum við ekkert getað kastað fram að þessu, enda höfum við ekki fundið neina síldartorfu til að kasta á," sagði Albert en rætt var við hann laust fyrir hádegið í dag.

Síldin, sem Faxi hefur fengið fram að þessu, er af millistærð. Fjögur skip voru á svæðinu í morgun en aðeins eitt þeirra var búið að kasta er rætt var við Albert. Óvíst var um árangurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×