Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa farið í 30 útköll það sem af er degi og fjölgar þeim ört. Útköllin eru víða um höfuðborgarsvæðið og á Kjalarnesi þar sem meðal annars þak er að fjúka af kjúklingabúinu Móum. Fjölmennt lið var sent á staðinn en í ljós hefur komið að það dugar ekki til. Verið er að kalla út stórvirkar vinnuvélar til að fergja þakið.
Gamli prestbústaðurinn við Brautarholt er fokinn út í veður og vind, m.a. er framhliðin farin úr honum. Á Valdastöðum í Kjós er þak að fjúka af gömlu fjósi og stendur skæðardrífa af drasli yfir íbúðarhúsið.
Í Reykjavík er þak að fjúka af stóru húsi við Köllunaklettsveg og borist hefur tilkynning um að þak sé að losna af háhýsi í Borgartúni.
Tíu hópar björgunarsveitamanna, eða um 40 manns, sinna nú þeim verkefnum sem fyrir liggja og verið er að bæta við fleira fólki eftir því sem þörfin eykst.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.