Íslenski boltinn

Andri Steinn líklega í Fjölni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Andri Steinn Birgisson í leik með Grindavík á síðasta tímabili.
Andri Steinn Birgisson í leik með Grindavík á síðasta tímabili. Mynd/Vilhelm

„Viðræður eru á algjöru byrjunarstigi en ég myndi segja að það væri líklegast að ég fari í Fjölni, enda mitt uppeldisfélag," sagði Andri Steinn Birgisson í samtali við Vísi.

Andri hefur yfirgefið norska félagið Asker og ætlar að spila í íslenska boltanum á ný en félagaskiptaglugginn opnar á morgun. „Ég á unga dóttur sem býr í Grafarvoginum og það er ástæða þess að ég kem heim. Það er hentugt að fara í Fjölni," sagði Andri.

Andri lék með Grindavík í Landsbankadeildinni í fyrra en hann hefur einnig leikið með Fram í efstu deild. Hann lék síðast með Fjölni í 3. deildinni 2002 en æfði með félaginu í gær og mun í kvöld leika æfingaleik með liðinu gegn Stjörnunni.

Fjölnismenn eru sem stendur með átta stig í Pepsi-deildinni og eru aðeins einu stigi frá fallsæti. Þeir hyggjast styrkja hóp sinn þegar glugginn opnar og samkvæmt heimildum Vísis eru þeir meðal annars að horfa út fyrir landsteinana í þeim efnum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×