Innlent

Fráleitt að EES sé í uppnámi

Höft Evrópuþjóðir hafa engar athugasemdir gert við tímabundin gjaldeyrishöft hér á landi sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingi í gær.Fréttablaðið/GVA
Höft Evrópuþjóðir hafa engar athugasemdir gert við tímabundin gjaldeyrishöft hér á landi sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingi í gær.Fréttablaðið/GVA

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er ekki í hættu þótt ekki takist samningar um Icesave, að mati Össurar Skarphéðinssonar utanríkis­ráðherra.

„Ég tel fráleitt að EES-samningurinn sé í uppnámi ef við göngum ekki frá þeim skuldbindingum sem við höfum axlað gagnvart Hollendingum og Bretlandi,“ sagði Össur á Alþingi í gær. Þar svaraði hann spurningu Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Eiríki Bergmann, forstöðumanni Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, og Kristjáni Vigfússyni, forstöðumanni Evrópufræða við Háskólann í Reykjavík, að hætta sé á að EES-samningnum verði sagt upp náist ekki samkomulag í Icesave-deilunni.

Össur segist ósammála þessari niðurstöðu fræðimannanna. Í grunninn snúist áhyggjur þeirra um að gjaldeyrishöftin sem sett voru í kjölfar hrunsins hamli þátttöku Íslands á innri markaði EES. Það eigi þó engu að breyta, enda höftin hluti af samningi sem Ísland hafi gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem þjóðir Evrópusambandsins eigi meira og minna allar aðild að. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við höftin.

Samkvæmt upplýsingum frá Eftirlitsstofnun EFTA er engin athugun í gangi á skorti á frjálsu flæði fjármagns frá Íslandi, þrátt fyrir að það gangi gegn ákvæðum EES, né hefur borist formleg kæra vegna þess.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×