Erlent

Stofnandi múslimasjónvarps hjó höfuðið af konu sinni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hassan og eiginkonan Aasiya Muzzammil.
Hassan og eiginkonan Aasiya Muzzammil. MYND/Reuters/Bridges TV

Stofnandi sjónvarpsstöðvar fyrir múslima í New York hefur verið handtekinn fyrir að hálshöggva eiginkonu sína.

Muzzammil Hassan stofnaði árið 2004 Bridges TV, sjónvarpsstöð sem ætlað er að sýna múslima í jákvæðu ljósi og auka skilning Bandaríkjamanna á trúarbrögðum þeirra og lífsskoðun. Stöðin hefur aðsetur í Buffalo í New York og veitir Hassan henni stjórnarformennsku auk þess að vera stofnandi.

Á fimmtudagskvöldið var þessi boðberi skilnings og umburðarlyndis handtekinn eftir að höfuðlaust lík konu hans fannst á skrifstofum Bridges TV í Orchard Park. Hafði Hassan þá tilkynnt lögreglu um lát konunnar.

Eiginkonan látna hafði nýlega sótt um skilnað við eiginmann sinn og segja þeir sem til þekkja að fátt hefði verið með þeim hjónum um hríð og sambúðin ekki gengið sem skyldi. Í kjölfar handtökunnar var ákæra gefin út á hendur Hassan og honum gefið að sök að hafa verið valdur að dauða konunnar.

Ekki er vitað hver tekur við stjórnartaumum Bridges TV en sá mun væntanlega eiga nokkurt starf fyrir höndum eigi að takast að halda áfram upphaflegum boðskap stöðvarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×