Lífið

Ókláruð plata sett á netið

riceboy sleeps Jónsi og Alex koma fram undir nafninu Riceboy Sleeps. Fyrsta plata þeirra verður gefin út í sumar. fréttablaðið/gva
riceboy sleeps Jónsi og Alex koma fram undir nafninu Riceboy Sleeps. Fyrsta plata þeirra verður gefin út í sumar. fréttablaðið/gva

Fyrstu plötu Jónsa í Sigur Rós og og kærastans Alex Somers undir yfirskriftinni Riceboy Sleeps hefur verið lekið á netið, rúmum tveimur mánuðum fyrir útgáfudag.

„Þetta er rosalega snemmt eitthvað. Það er svo langt þangað til hún kemur út,“ segir Jónsi, sem hafði ekkert frétt af lekanum. Hann segist vera ósáttur við tíðindin, sérstaklega vegna þess að platan er ekki fullkláruð. „Það er það eina leiðinlega við þetta,“ segir hann og Alex tekur í sama streng: „Við hefðum ekki haft yfir neinu að kvarta ef kláruð útgáfa af plötunni hefði farið á netið. En það veldur mér vonbrigðum að „grófu mixin“ séu komin þangað. Engu síður erum við að vissu leyti bara ánægðir að fólki vilji hlusta á okkur.“ Jónsi segist íhuga að leggja fram kvörtun yfir lekanum í von um að skrúfað verði fyrir hann.

Plötum Sigur Rósar hefur í gegnum árin verið lekið á netið en ekki eins snemma og þessari. „Stundum er þetta gott og stundum er þetta vont. Þetta var að vissu marki gott fyrir okkur í Sigur Rós þegar við vorum að byrja. Þegar plöturnar láku á netið kynntu þær fullt af fólki fyrir tónlistinni,“ segir Jónsi.

Nýja platan, sem er að stórum hluta ósungin, kemur út í Evrópu á vegum Parlophone 20. júlí. Hún verður fáanleg í nokkrum útgáfum, eða á geisladiski, í stafrænu formi, á tvöföldum vínyl og í kassa með auka EP-plötu. Þarna verður vitaskuld um fullkláraða útgáfu að ræða og má telja líklegt að æstir aðdáendur Sigur Rósar vilji frekar bíða aðeins lengur eftir henni en að hlusta á verk sem enn á eftir að ljúka við. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.