Innlent

Strandveiðar dæmi um misnotkun valds

Málin rædd Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sjá strandveiðar ekki í sama ljósi. Hjá þeim stendur Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.fréttablaðið/gva
Málin rædd Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sjá strandveiðar ekki í sama ljósi. Hjá þeim stendur Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.fréttablaðið/gva

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagði við upphaf aðalfundar sambandsins í gær að strandveiðar sumarsins séu dæmi um misnotkun valds. „Strandveiðarnar eru komnar til að vera. Þær verða áfram í viðlíka umfangi og var í sumar,“ segir hins vegar Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra.

„Við höfum í áraraðir barist gegn óþolandi mismunun, þar sem ákveðnum hópum er hyglað á kostnað annarra í formi byggðakvóta, línuívilnunar og tilfærslu aflaheimilda til smábáta, nú síðast með strandveiðum,“ sagði Adolf í setningarræðu sinni. Bætti hann við að fjögur þúsund tonn af þorski hefði verið uppsett verð í „pólitískum atkvæðaveiðum“. Á sama tíma hafi aflaheimildir atvinnuútgerða og sjómanna verið skertar um 62 þúsund tonn af botnfiski.

Sjávarútvegsráðherra kom í pontu á eftir Adolfi en minntist ekki á strandveiðikerfið í sinni ræðu. Aðspurður vildi hann ekkert tjá sig um gagnrýni formannsins. Hans framtíðarsýn á strandveiðikerfið er sú að það sé opnun inn í fiskveiðistjórnunarkerfið sem sé komið til að vera. Nú er beðið skýrslu frá strandsetri Háskóla Íslands á Ísafirði og síðan muni ráðuneytið gera tillögu um breytingar á stjórn fiskveiða um áframhald veiðanna á næsta ári.

Það má segja að Adolf hafi höggvið til beggja handa í ræðu sinni. Árna Pál Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, gagnrýndi hann afar hart fyrir ræðu hans á ársfundi ASÍ nýlega. „Yfirlýsingar hans hafa ekki aðeins afhjúpað þekkingarleysi hans heldur hafa þær undirstrikað hroka og fyrirlitningu í garð þess fólks sem starfar við grundvallaratvinnuvegi landsins.“

Að vonum gagnrýndi Adolf hugmyndir um upptöku aflaheimilda og sakaði stjórnvöld um að skapa óróa innan sjávarútvegsins með því að kasta fram óútfærðum hugmyndum. Hann sagði óvissuna samfara þeim þegar hafa valdið tjóni.

Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var einnig á meðal umfjöllunarefnis í ræðu formannsins. Hann sagðist vera þess fullviss að þjóðin myndi aldrei samþykkja aðildarsamning sem fæli í sér afsal á yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×