Erlent

Netanjahú stöðvar hluta framkvæmda landnema

Þessi Ísraeli lagði ásamt félögum sínum undir sig landspildu og er að reisa sér þar húsaskjól. Mynd/AP
Þessi Ísraeli lagði ásamt félögum sínum undir sig landspildu og er að reisa sér þar húsaskjól. Mynd/AP

Ísraelskir fjölmiðlar segja að Benjamín Netanjahú forsætisráðherra hafi, vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum, látið stöðva framkvæmdir við eina af fjölmörgum byggðum landtökumanna.

Hætt hefur verið við að reisa 900 íbúðir í hverfinu Pisgat Ze'ev í austurhluta Jerúsalemborgar, sem Palestínumenn gera tilkall til.

Fulltrúar Bandaríkjanna hafa í vikunni verið á fundum með ísraelskum ráðamönnum og lagt hart að þeim að stöðva allar frekari framkvæmdir við landtökubyggðir í Austur-Jerúsalem og á Vesturbakkanum.

Palestínumenn hafa sagt að ekkert verði af frekari viðræðum við Ísrael fyrr en Ísraelar verði við þessari kröfu Bandaríkjastjórnar. Deilurnar um landtökubyggðirnar eru meðal þess, sem helst hefur komið í veg fyrir friðarsamninga.

Ísraelskir landtökumenn á hernumdu svæðunum eru nú orðnir 300 þúsund. Áratugum saman hafa þeir stundað það að setjast að á svæðum, sem Palestínumenn hafa til umráða.

Þeir njóta til þess verndar frá Ísraelsher, sem heldur Palestínumönnum frá, jafnvel þótt þeir hafi haft afnot af svæðunum áður, til dæmis til landbúnaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×