Innlent

Lögreglan óttast um öryggi vegfarenda eftir niðurskurð

Frá hellisheiði
Lögregla gagnrýnir að ekki var hægt að vara við hálku á umferðaröryggisskiltum við þjóðveginn.
fréttablaðið/vilhelm
Frá hellisheiði Lögregla gagnrýnir að ekki var hægt að vara við hálku á umferðaröryggisskiltum við þjóðveginn. fréttablaðið/vilhelm

„Hingað til hefur það dugað að hringja í Vegagerðina þegar svona skilyrði koma upp. Þá hefur bíll verið sendur um hæl,“ segir Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi.

„Þess vegna hrukkum við til þegar okkur var sagt að þetta hefði breyst,“ segir Theódór, sem óttast að niðurskurður hjá Vegagerðinni komi niður á umferðaröryggi. Vegagerðin hefur sent niðurskurðar­tillögur til samgönguráðherra sem allar vinna að því að umferðar­öryggi sé ekki ógnað, segir forstöðumaður.

Mikil ísing hefur myndast á vegum í Borgarfirði í tvígang á stuttum tíma við sérstakar aðstæður. Þá er lofthiti þrjár til fjórar gráður en mikil hálka myndast engu að síður. Bílar sem voru vel búnir til vetraraksturs runnu þá út af veginum þrátt fyrir að varlega væri farið. Engan sakaði.

Lögreglan í Borgarnesi hringdi í Vegagerðina en var neitað þegar beðið var um bíl til að salta vegina. Theodór kveðst vona að eitthvað tilfallandi hafi orsakað að ekki var hægt að senda bílinn. Hann segir að ósk lögreglu um að skilti yrðu notuð til að vara við hálku hafi jafnframt verið hafnað.

Magnús V. Jóhannsson, svæðis­stjóri Vegagerðarinnar í Borgarnesi, segir að þjónustustig á svæðinu hafi ekki breyst þó að fjárhagsstaðan sé erfið.

„Veðuraðstæður hafa verið sérstakar og það er stundum erfitt að bregðast við því,“ segir Magnús. Hann segir að samkvæmt verklagsreglum séu ákveðnir staðir hálkuvarðir en aðrir ekki. Þjónustustigið hafi þó aukist jafnt og þétt á síðustu árum. „En því er ekki að neita að peningar eru af mjög skornum skammti og þjónustan verður ekki aukin á næstunni nema eitthvað sérstakt komi til.“

Björn Ólafsson, forstöðumaður þjónustusviðs Vegagerðarinnar, segir að niðurskurðartillögur séu nú á borði samgönguráðherra. „Tillögurnar gera ekki ráð fyrir minni þjónustu og við munum verja umferðaröryggið. Það er forgangsatriði í okkar tillögum.“

Vegagerðin hefur úr um tveimur milljörðum að spila í dag en gerð er krafa um allt að tíu prósenta niður­skurð. „Það er kannski hægt að hjálpa okkur yfir þennan þröskuld því þetta er viðkvæmt mál.“ Björn segir sparnaðaraðgerðirnar verða kynntar um leið og ráðherra hafi tekið þær til yfirvegunar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×