Innlent

Um 50 þúsund hafa veikst

Haraldur Briem telur að um fimmtíu þúsund hafi veikst af svínaflensu. Fréttablaðið/Hari
Haraldur Briem telur að um fimmtíu þúsund hafi veikst af svínaflensu. Fréttablaðið/Hari

Sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, telur að um fimmtíu þúsund Íslendingar hafi veikst nú þegar af svínainflúensu. Hún sé ekki lengur í sókn, þegar litið er á landið í heild.

Frá og með mánudeginum 16. nóvember geta allir landsmenn pantað tíma á heilsugæslustöðvum fyrir bólusetningu gegn svínaflensunni. Viku síðar, mánudaginn 23. nóvember, verður byrjað að bólusetja þá sem fyrstir skráðu sig. Alls hafa verið bólusettir um þrjátíu þúsund manns hérlendis og áfram verður haldið af fullum krafti að bólusetja sjúklinga í skilgreindum forgangshópum með því bóluefni sem til er og með bóluefni sem væntanlegt er næstu tvær vikurnar.

Afleiðingar inflúensufaraldurs­ins geta verið mjög alvarlegar eins og dæmin sanna hérlendis og erlendis. Sóttvarnalæknir hvetur því vanfærar konur og þá sem eru með „undirliggjandi sjúkdóma“ til að panta þegar í stað tíma fyrir bólusetningu á næstu heilsugæslustöð.

Þá er eindregið mælst til þess að aðstandendur barna, ungmenna og aldraðra með „undirliggjandi sjúkdóma“ sjái til þess að viðkomandi láti bólusetja sig.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×