Erlent

Nígería: Þúsundir flýja að heiman

Mæður og börn þeirra leituðu skjóls í lögreglustöð í bænum Maiduguri eftir að herskáir íslamistar tóku hóp bæjarbúa í gíslingu. Mynd/AFP
Mæður og börn þeirra leituðu skjóls í lögreglustöð í bænum Maiduguri eftir að herskáir íslamistar tóku hóp bæjarbúa í gíslingu. Mynd/AFP

Hörð átök geisa nú í norðanverðri Nígeríu milli íslamskra uppreisnarmanna og stjórnarhersins. Átökin hafa kostað tugi manna lífið og þúsundir almennra borgara á svæðinu hafa flúið heimili sín.

Blaðamenn á svæðinu fullyrða að átökin hafi byrjað á sunnudag þegar hópur uppreisnarmanna réðst á lögreglustöð í Bauchi-héraði. Síðan hafi þeir ráðist á lögregluna í héruðunum Kanu, Yobe og Borno.

Umaru Yar'Adua, forseti landsins, sagði þetta ekki rétt, því stjórnarherinn hafi orðið fyrri til að gera árás á uppreisnarmennina, sem hafi verið að undirbúa árásir.

„Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki trúarbragðastríð og það var ekki talibanahópurinn sem réðst fyrst á öryggissveitirnar," sagði forsetinn í gær, áður en hann hélt í opinbera heimsókn til Brasilíu.

„Ástandið er viðráðanlegt," bætti hann við.

Þrátt fyrir þetta hefur almenningur orðið illa úti. Í gær höfðu meira en fjögur þúsund manns flúið að heiman, en nákvæmar tölur um mannfall liggja ekki fyrir. Þó er vitað að tugir manna hafa látist.

Við járnbrautarstöðina í Maiduguri, sem er höfuðborg Borno-héraðs, segir fólk að skotbardagar hafi haldið fyrir því vöku alla nóttina. Þegar birta tók af degi streymdi fólk út úr húsum sínum með brýnustu nauðsynjar í farangrinum.

Á þriðjudag settu stjórnvöld á útgöngubann að næturlagi, og síðan hafa hermenn verið á hverju götuhorni.

Samtökin, sem barist er við, ganga undir ýmsum nöfnum, meðal annars Al-Sunna wal Jamma, sem þýðir „Fylgismenn kenninga Múhameðs", og Boko Haram, sem þýðir „Vestræn menntun er synd".

Sumir ráðamenn í Nígeríu hafa kallað þau talibanasamtök, en ekki er vitað um nein tengsl þeirra við talibanahreyfinguna í Afganistan og Pakistan.

Stjórnmálaskýrendur segja óróleikann nú hafa átt sér nokkurra mánaða aðdraganda. Lögreglan hafi gert árásir á bækistöðvar hreyfingarinnar og fundið þar sprengiefni og vopn.

Óeirðir og átök milli trúarhópa og nágrannasamfélaga, meðal annars út af vatni og landsvæðadeilum, hafa brotist út reglulega í norðanverðri Nígeríu. Oft standa stjórnmálamenn og trúarleiðtogar á bak við slík átök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×