Íslenski boltinn

Orri Freyr: Þetta er skandall

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín. Mynd/Vilhelm

„Það er lítið að ganga upp hjá okkur þessa dagana. Það verður bara að segjast eins og er. Í hvert skipti sem við missum boltann er okkur refsað," sagði Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur, hundfúll eftir 0-4 tapið gegn KR í kvöld.

„Mér fannst fyrri hálfleikur í fínu lagi hjá okkur. KR skapaði lítið og allt í lagi að vera bra 0-1 undir eftir að hafa verið með vindinn í andlitið. Við ætluðum að pressa þá hátt í seinni hálfleik og gefa þeim engan frið. Það klikkaði heldur betur."

Grindvíkingum var spáð góðu gengi fyrir mót en hefur engan veginn staðið undir þeim væntingum. Tapað báðum leikjum sínum og fengið á sig sjö mörk.

„Spáin truflar okkur ekkert. Það eru bara tveir leikir búnir og við förum ekkert á taugum. Við þurfum aftur á móti að finna einhverja gleði og kraft til þess að koma okkur í gang," sagði Orri sem gat samt ekki leynt vonbrigðum sínum.

„Þetta er bara skandall. Þetta er ekki það sem við lögðum upp með að gera í byrjun móts."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×