Lífið

Teiknari á uppleið í Kaupmannahöfn

Langar að gefa út bók Jón Kristján rekur fyrirtæki í Kaupmannahöfn sem býr til teiknimyndir.
Langar að gefa út bók Jón Kristján rekur fyrirtæki í Kaupmannahöfn sem býr til teiknimyndir.

Jón Kristján Kristinsson er ungur teiknari sem býr í Kaupmannahöfn og rekur þar fyrirtækið Frame­bender auk fjögurra annarra.

„Fyrirtækið er aðeins tveggja mánaða gamalt en við höfum haft nóg að gera síðan við komum þessu á laggirnar og höfum meðal annars gert auglýsingar fyrir veitingastaðinn Jensens bøfhus og fyrir Hróarskelduhátíðina. Núna erum við einnig að vinna að tónlistarmyndbandi fyrir íslensku hljómsveitina Valrós,“ segir Jón Kristján, en hann og söngvari hljómsveitarinnar eru gamlir vinir.

„Þetta var uppástunga frá hljómsveitarmeðlimum og ég ákvað að slá til. Lagið kallast Millionaire og mun myndbandið fjalla um milljónarmæring sem vill kaupa hvað sem er handa konu sinni. Stíllinn verður svolítið gamaldags og í anda teiknimynda á borð við Tomma og Jenna og Bleika pardusinn.“

Jón Kristján segir vinnuna við myndbandið vera mjög tímafreka, enda þurfi að teikna hvern ramma fyrir sig.

„Þar sem við gerum þetta ekki í þrívídd þá þarf að teikna ramma fyrir ramma, þannig að það getur tekið okkur allt að tvo mánuði að teikna einnar mínútu mynd.“

Aðspurður segist Jón Kristján hafa mikinn áhuga á að gera teiknimyndasögu í framtíðinni og gefa út í bókarformi. Áður hefur hann hlotið fyrstu verðlaun í myndasögukeppni á vegum DR.dk, en sú saga fjallaði um búsáhöld.

„Ég tók þátt í teiknimyndakeppni fyrir tveimur árum síðan og hlaut fyrstu verðlaun fyrir söguna sem ég sendi inn. Ég hefði mikinn áhuga á að fara lengra með þetta og jafnvel gefa út bók með teiknimyndaseríum, en það er erfitt að finna einhvern til að styrkja þess háttar verkefni í þessu árferði,“ segir Jón Kristján að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.