Erlent

Harry Potter setti heimsmet í aðsókn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Aðalleikararnir mega vera sáttir við stykkið.
Aðalleikararnir mega vera sáttir við stykkið.

Nýjasta kvikmyndin um Harry Potter setti heimsmet í aðsókn á frumsýningu á miðvikudaginn.

Þessu halda menn að minnsta kosti fram hjá útgefandanum Warner Brothers og sennilega er það rétt hjá þeim með tilliti til þeirra ógnarháu sölutalna sem Potter karlinn skilaði í hús. Miðar seldust fyrir ekki minna en 104 milljónir dollara, jafnvirði rúmlega 13 milljarða íslenskra króna. Af þessari summu kom rétt rúmur helmingur inn í Bandaríkjunum en afgangurinn í öðrum löndum.

Auk þess að eiga met í frumsýningaraðsókn rakaði myndin inn fjórðu mestu tekjum sem kvikmynd hefur náð inn á einum degi frá því að mælingar hófust. Það virðist boða happ fyrir Warner-bræðurna að frumsýna helstu stórvirki sín á miðvikudögum en ekki er lengra síðan en í fyrra að fimmta Harry Potter-myndin, sú er fjallaði um Fönixregluna, sló í gegn á miðvikudagsfrumsýningu og skilaði býsna góðum sölutölum.

Vilji menn enn meiri tölfræði má geta þess að fyrstu fimm myndirnar um Harry Potter hafa þénað litla fjóra og hálfan milljarð dollara sem eru næstum því 600 milljarðar króna. Upphæð sem færi langt með að bjarga Íslendingum úr hinu bresk-hollenska Icesave-feni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×