Innlent

Ákvörðun um ákæru tekin á morgun

Litháíska konan, sem talin er vera fórnarlamb mansals og kom hingað til lands í október síðastliðnum, hefur verið seld ítrekað í vændi í heimalandi sínu að eigin sögn. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Í upphafi málsins höfðu þrettán manns stöðu sakbornings, en fimm Litháar og einn Íslendingur eru nú grunaðir um aðild að því. Ákvörðun um ákæru verður tekin á miðvikudag.

Af þeim þrettán sem höfðu réttarstöðu sakbornings við upphaf rannsóknar voru sex Íslendingar og sjö útlendingar. Fimm Litháar sitja nú í gæsluvarðhaldi sem rennur út á miðvikudaginn. Þeir hafa verið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Einn Íslendingur liggur einnig undir grun en hann er ekki í gæsluvarðhaldi.

Stúlkan, sem talin er fórnarlamb mansals, er nítján ára. Hún var stöðvuð þegar hún kom til landsins í október eftir að hafa látið ófriðlega í flugvél. Hún var með fölsuð skilríki.

Á miðvikudag hyggst ákæruvaldið leggja fram kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds yfir Litháunum.

Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari hjá Ríkissaksóknara, segir að á miðvikudaginn verði búið að taka ákvörðun um hvort mennirnir sex verði ákærðir. Farið verði fram á að stúlkan beri vitni í réttarhöldunum. Refsiramminn fyrir mansal er átta ára fangelsi.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 segist stúlkan hafa verið seld ítrekað í vændi í Litháen áður en hún kom til Íslands. Við skýrslutökur hafi hún sagt að sér hafi verið haldið nauðugri í íbúð í fjölbýlishúsi í fjóra mánuði seinni hluta síðasta árs. Litháarnir fimm tengjast innbyrðis en neita allir sök. - aó




Fleiri fréttir

Sjá meira


×