Innlent

Íslendingar gætu grætt meira á olíu en Norðmenn

Drekasvæðið gætu skilað meiri tekjum á hvert mannsbarn hérlendis en þeim sem Norðmenn hafa fengið af sínum olíulindum, miðað við bjartsýnustu spár.

Ef við gefum okkur að spá sérfræðinga Sagex Petrolium rætist um auðæfi Jan Mayen-hryggjarins gætu Íslendingar verið að horfa í auðlind sem nemur einum sjötta af því sem Norðmenn eiga. Þeir eru fimmtán sinnum fleiri en Íslendingar þannig að hlutfallslega gæti olíugróðinn orðið tvöfalt til þrefalt meiri á hvert mannsbarn hérlendis en í Noregi. Þar er gróðinn svo mikill að stjarnfræðilegar fjárfestingar í borpöllum skila sér hratt til baka, oft á aðeinss tveimur til þremur árum.

Olían hefur í stuttu máli gert Noreg að auðugasta velferðarríki heims. Þar er olíuiðnaður nú mikilvægasta atvinnugreinin, stendur undir helmingi af útflutningstekjunum og þriðjungi af tekjum norska ríkisins. En Norðmenn gæta mikils aðhalds og passa að olían sprengi ekki upp launin.

En olían er þverrandi auðlind. Olíuframleiðsla Noregs hefur nú minnkað um þriðjung frá því hún náði hámarki árið 2000. Gasframleiðslan er enn að aukast en að því kemur að hún dregst einnig saman. Þessvegna safna Norðmenn í sjóð svo kynslóðir framtíðarinnar geti einnig notið olíugróðans og eiga þar nú 2.300 milljarða norskra króna, eða sem nemur níu milljónum íslenskra króna á hvern Norðmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×