Innlent

Tólf krónu munur á kaup- og sölugengi evru í Leifsstöð

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Tæplega tólf krónu munur er á kaup og sölugengi evru í Landsbankaútibúinu í Leifsstöð. Nokkrir ferðamenn hafa haft samband við fréttastofu og gert athugasemdir við þetta. Hvort þetta sé hreinlega leyfilegt. Jóhannes Gunnarsson, formaður neytendasamtakanna, segir að frjáls verðmyndun sé á þessum markaði líkt og öllu öðru. Hann gerir hinsvegar athugsemd við framsetningu á upplýsingum um gengi gjaldmiðla á vefsíðum bankanna.

„Þeir bera fyrir sig að opnunartíminn sé allur sólarhringurinn, það sé dýrara," segir Jóhannes um gengið á evru í Landsbankanum í Leifsstöð þar sem ferðamenn geta keypt evrur á 182,35 krónur, samkvæmt gengi dagsins, en selt sömu evrur fyrir einungis 170,86 krónur. „Við gerðum einhvern tímann könnun á seðlagengi hjá þeim, sem eru að selja gjaldeyri, þá þurftum við að hafa landsbankann almennt og Landsbankann í Leifsstöð. Það er dýrara að vera að kaupa gjaldeyrinn á síðustu stundu," segir Jóhannes.

Á vefsíðum bankanna má sjá skráningu á gengi hinna ýmsu gjaldmiðla. Það gengi sem er á forsíðum vefjanna er þó ekki það gengi sem almenningur ætti að miða sig við. Þar er um að ræða svokallað viðmiðunargengi en það gengi sem hinn almenni borgari kaupir á er svokallað seðlagengi. Það má nálgast á síðunum eftir smá krókaleiðum.

„Ég myndi telja það miklu eðlilegra að á forsíðunni væri birt seðlagengi en ekki eitthvert viðmiðunargengi. Það mætti vera skýrara á síðunni. Þegar verið er að setja fram svona margar útgáfur á gengi finnst mér skipta hvað er hvað. Það sem skiptir almenning mestu máli er seðlagengi," segir Jóhannes og bætir við: „Bankarnir og í raun Sparisjóðirnir líka, hafa byggt upp fyrirmyndarheimasíður og heimabanka. Þá eiga þeir ekki klikka á smáatriðum. Mér skilst að heimabankarnir séu þeir fremstu í heiminum nefnilega. Maður verður að leyfa bönkunum að eiga það sem þeir eiga," segir hann og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×