Innlent

Arnarnesmálið: Ekki tókst að ferja einn sakborninga í héraðsdóm

Maðurinn er í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Maðurinn er í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Arnarnesmálið svokallaða var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fjórir aðilar eru ákærðir í málinu en einungis þrír mættu fyrir dóm. Einn sakborninga situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hann hefur verið í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ekki var mannskapur til þess að ferja hann niður í héraðsdóm við Lækjartorg í morgun.

Guðmundur Gíslason forstöðumaður í Hegningarhúsinu segir að flutningar sem þessir séu skipulagðir fyrirfram. Sérstakir flutningsmenn flytja fanga í dóm og milli fangelsa.

„Þannig stóð á í þessu máli að þeir voru uppteknir og það var vitað fyrirfram. Við höfum bara einn bíl í þessu en til stóð að lögreglan myndi flytja þennan mann. Það var búið að biðja um þennan flutning en ég veit ekki alveg hversvegna það var ekki gert," segir Guðmundur sem var að heyra af málinu og átti eftir að kanna það betur.

Guðmundur vill ekki meina að þetta hafi verið vegna mannfæðar hjá fangelsismálastofnun en stundum sé þetta svona.

Tvær stúlkur og einn piltur mættu fyrir dóm í morgun. Önnur stúlkan neitaði sök í málinu en hin tvö játuðu aðild sína að málinu. Um er að ræða innbrot á heimili á Arnarnesi þar sem eldri hjónum var haldið í gíslingu á meðan tveir menn fóru ránshendi um heimilið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×