Innlent

Líklegt að Ómar verði bæjarstjóri

Ómar og Gunnar meðan allt lék í lyndi.
Ómar og Gunnar meðan allt lék í lyndi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi vinna nú að því að bjarga meirihlutasamstarfinu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Fullyrt er að margt sé uppi á borðinu, að í raun sé verið að semja nýjan samstarfssamning og að báðir aðilar muni gera kröfur á hinn.

Hvað það felur nákvæmlega í sér er ekki ljóst, en fullvíst er talið að þess verði krafist að Gunnar I. Birgisson víki sem bæjarstjóri. Það þarf hins vegar ekki að fela í sér að hann hverfi af hinu pólitíska sviði í Kópavogi né heldur að hann hætti afskiptum af málefnum bæjarins. Samningar munu síðan meðal annars snúast um hver eigi að taka við sem bæjarstjóri og hve lengi, en líklegt er að það verði Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknar, til að byrja með.

Ekki dró til tíðinda á fundi bæjarráðs Kópavogs í dag, en Gunnar mun þó hafa vikið af fundi þegar fjallað var um málefni honum tengdum, þ.e.a.s. málefni Frjálsrar miðlunar sem er í eigu dóttur hans og eiginmanns hennar og fjallað var um í úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte.

Fulltrúaráð Framsóknarflokksins kemur saman í kvöld og þar mun Ómar gera grein fyrir stöðu mála. Er búist við að tíðinda sé að vænta af þeim fundi, en hann hefst klukkan átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×