Innlent

Fimm sinnum brotist inn í sama bílinn

Bjarki Hermannsson er eigandi Subaru Impreza bifreiðar sem búið er að brjótast fimm inn í frá því síðasta vor. Síðast var brotist inn í bílinn í þessum mánuði en hann hefur staðið á lóð rétt fyrir utan Selfoss. Bjarki biður þá sem eitthvað vita um málið að hafa samband við sig.

„Þeir hafa verið að ganga í hann síðan í apríl á síðasta ári og það er búið að hreinsa allt innan úr honum. Nú eru þeir byrjaðir að hreinsa utan af honum líka, þetta er bara orðið brak í dag," segir Bjarki.

Mælaborðið ásamt innréttingunni er horfið og telur Bjarki að tjónið geti verið allt að tvær milljónir króna.

„Þetta er einn af þessum flottari GTI bílum sem voru á götunni fyrir nokkrum árum, einn af þessum sportbílum," segir Bjarki en bíllinn er silfraður station bíll að sögn Bjarka.

Hann hefur ekkert notað bílinn í um þrjú ár en til stóð að fara að vinna í honum áður en þetta byrjaði.

„Ég ætlaði að fara að vinna í honum og breyta honum aðeins en það hefur setið á hakanum eftir að þetta byrjaði," segir Bjarki.

Hann biður þá sem eitthvað vita um málið, sama hversu ómerkilegt það sé, að hafa samband við sig í síma 864-6812.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×