Lífið

Þáttaskipti hjá Jay Leno

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jay Leno er hvergi nærri af baki dottinn þótt hann hverfi á braut úr The Tonight Show.
Jay Leno er hvergi nærri af baki dottinn þótt hann hverfi á braut úr The Tonight Show. MYND/Getty Images

Spaugarinn, háðfuglinn og bíladellusjúklingurinn annálaði, Jay Leno, réttir Conan O'Brien keflið og horfir á eftir þætti sínum, The Tonight Show, í hendur hans 29. maí, 17 árum eftir að Johnny Carson eftirlét Leno þáttinn.

Hann fer þó ekki lengra en rétt yfir bílaplanið hjá NBC, eins og hann orðar það sjálfur, því hann hefst þegar handa við nýjan þátt sem hefur göngu sína í september. Sófinn góði úr núverandi þætti fylgir Leno þó ekki á nýja staðinn en andinn og skopskynið munu þó gera það, lofar hann.

Nýi þátturinn heitir einfaldlega The Jay Leno Show, það er ekki flóknara, en annars gefur sá gamli lítið upp. Hann segir þó að gestagangurinn verði minni en nú er og meira lagt upp úr hans eigin spjalli við áhorfendur heima í stofu. Glens og grín fyrir svefninn, lofar Leno, en fátt telur hann stuðla að betri nætursvefni en einmitt það.

Kappinn endar ferilinn í Tonight Show með glansi eins og við var að búast og gestirnir í næstu viku verða þungavigtarmenn á borð við Arnold Schwarzenegger, Billy Crystal og Prince. Leno segist kveðja með bros á vör og hlakkar til haustmánaða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.