Innlent

Höftum létt af innstreymi gjaldeyris

Stjórnendur Seðlabankans. Breytingar á reglum um gjaldeyrismál verða kynntar í Seðlabankanum í dag.
Fréttablaðið/Pjetur
Stjórnendur Seðlabankans. Breytingar á reglum um gjaldeyrismál verða kynntar í Seðlabankanum í dag. Fréttablaðið/Pjetur

Búist er við að Seðlabankinn kynni í dag ákvörðun um að stigið verði fyrsta skrefið í áætlun bankans um afnám gjaldeyrishafta. Með því yrðu afnumin höft af innstreymi erlends gjaldeyris sem ætlað er í nýjar fjárfestingar.

Áætlunin var samþykkt í byrjun ágúst. Þar kom fram að enda þótt gjaldeyrishöftin sem sett voru 28. nóvember í fyrra hafi verið talin nauðsynleg til að koma á stöðugleika eftir hrun fjármálakerfisins sé mikilvægt að afnema höftin í áföngum til að koma efnahagsaðstæðum í eðlilegt horf. Var þá gert ráð fyrir að fyrsta áfanganum yrði náð „nokkuð fyrir 1. nóvember“ enda yrðu þá ýmis skilyrði að vera orðin uppfyllt. Meðal þeirra er hjöðnun verðbólgu og samstaða um langtímaáætlun í fjármálum ríkisins þannig að trú sé á því að ríkið væri fyllilega fært um að standa við skuldbindingar sínar.

Ekki fékkst staðfest í Seðlabankanum í gær að komið sé að því að hrinda fyrsta áfanga áætlunarinnar í framkvæmd. Hins vegar segir í tilkynningu frá bankanum að í dag verði kynntar „breytingar á reglum um gjaldeyrismál í samræmi við áður kynnta áætlun um afnám gjaldeyrishafta“.

Þann erlenda gjaldeyri sem fluttur verður til landsins samkvæmt nýju reglunum má skipta aftur úr krónum og flytja úr landi að nýju. „Innstreymið í byrjun ætti að styrkja krónuna“, segir í fyrrnefndri áætlun Seðlabankans.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×