Erlent

Forseti Kína hvetur fólk til að vera til friðs

Hu Jintao, forseti Kína, leggur áherslu á að gefa þá ímynd af sér að hann láti sér annt um þjóð sína. Mynd/AP
Hu Jintao, forseti Kína, leggur áherslu á að gefa þá ímynd af sér að hann láti sér annt um þjóð sína. Mynd/AP

Hu Jintao, forseti Kína, tjáði sig í gær í fyrsta sinn opinberlega um átökin í Xinjiang-héraði í Kína, þar sem Úígúrum lenti saman við Han-Kínverja.

„Fólk af öllu þjóðerni á að bera virðingu hvað fyrir öðru,“ sagði forsetinn á ferðalagi sínu um Yunnan-hérað í gær. „Leyfum blómi þjóðerniseiningar að blómstra skært og fagurlega.“

Ekki vék hann reyndar beint að átökunum í Xinjiang með þessum skáldlegu orðum, en ekki fór á milli mála hvað hann átti við.

Kínversk yfirvöld hafa viðurkennt að nærri 200 manns hafi látist og meira en 1.700 slasast í átökunum, sem eru þau verstu í Kína svo áratugum skiptir.

Stjórnvöld segja flesta hinna látnu vera Han-Kínverja, en Úígúrar segjast sannfærðir um að miklu fleiri úr þeirra hópi hafi látið lífið vegna harkalegra aðgerða hers og lögreglu í framhaldi af átökunum.

Síðan átökin hófust fyrir meira en þremur vikum hefur að mestu verið síma- og netsambandslaust, en takmarkað samband komst á sums staðar í héraðinu nú í vikunni.

Úígúrar, íslömsk þjóð af tyrkneskum uppruna, hafa öldum saman búið í héraðinu en síðan það var innlimað í Kína árið 1949 hafa Kínverjar streymt þangað og eru nú álíka margir og Úígúrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×