Innlent

Viðbrögð Breta og Hollendinga rædd í utanríkismálanefnd

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sat fund fjárlaganefndar ásamt samráðherra sínum Össuri Skarphéðinssyni.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sat fund fjárlaganefndar ásamt samráðherra sínum Össuri Skarphéðinssyni.
Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra komu á fund utanríkismálanefndar í morgun til að greina frá samskiptum við bresk og hollensk yfirvöld, hin Norðurlöndin og Evrópusambandið í kjölfar afgreiðslu fjárlaganefndar á Icesave málinu.

Þá hafi verið rætt hvernig haldið verður á framhaldi málsins gagnvart stjórnvöldum og almenningi.

„Í grófum dráttum þá voru þeir að fara yfir það að þeir hefðu verið í samskiptum við þessi ríki og greint þeim frá því hvernig málið væri statt í þinginu," segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar.

Hann segir ráðherrana hafa gert yfirvöldum í löndunum grein fyrir þeim tillögum sem komu úr fjárlaganefnd og snúast um fyrirvara við ríkisábyrgð á Icesave samninginn.

„Síðan er náttúrulega beðið eftir endanlegri afgreiðslu þingsins til að taka þessa formlegu hlið málsins, því það þarf að ræða við okkar viðsemjendur eftir hana."

Árni segir ráðherrana hafa gert nefndinni grein fyrir fyrstu viðbrögðum þarlendra stjórnvalda. Hann vildi ekki hafa þau eftir, en vísaði á ráðherrana til að svara því.

Hann bendir þó á að menn séu enn fyrst og fremst að afla sér upplýsinga um hvað í fyrirvörum fjárlaganefndar felst, svo enn hafi engin formleg viðbrögð borist frá Bretum og Hollendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×