Innlent

Segir stórveldistíma bankagjafaþega liðinn

Ólafur Friðrik Magnússon fyrrverandi borgarstjóri á góðri stundu í miðborg Reykjavíkur.
Ólafur Friðrik Magnússon fyrrverandi borgarstjóri á góðri stundu í miðborg Reykjavíkur.

Á fundi borgarráðs í morgun var rætt öðru sinni um fyrirætlanir varðandi framhald framkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhús við gömlu höfnina og um forgangsröðun og fjármögnun framkvæmda í miðborginni.

Af því tilefni lýsti Ólafur F Magnússon borgarfulltrúi F-listans yfir andstöðu sinni við þá forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins og stuðningsflokka hans í borgarstjórn að halda áfram uppbyggingu þeirrar ofurmiðborgar sem fyrirhugað var að reisa á hafnar- og slippasvæðinu, í stað þess að halda áfram með mun hagkvæmari menningarlegri og ferðaiðnaðarvænni uppbyggingu gömlu miðborgarinnar í Kvosinni og við Laugaveg.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi sem hann sendi frá sér nú seinni partinn. Hann segir ennfremur að brýna nauðsyn beri til að endurskoða yfirgengilegar og rándýrar áætlanir um miðborgina frá þeim tíma sem sjálfhverfuauðvaldið réði málum í landi og borg fram að hruni þess í októbermánuði síðast liðnum.

„Tryggja þarf að ný miðborg á hafnar- og slippasvæðinu taki meira mið af fínleika gömlu miðborgarinnar og að horfið verði frá tröllauknum fyrirætlunum um rándýr neðanjarðargöng og óhagkvæmar ofurbyggingar í miðborginni í takt við skýjaborgir sjálfstæðismanna um allt að 30.000 manna byggð á landfyllingum og eyjum utan strandlengjunnar í Reykjavík," segir Ólafur.

Þá segir hann að taka verði tillit til þeirrar staðreyndar að við búum í fámennu samfélagi með takmarkaðan aðgang að fjármagni og að stórveldistími bankagjafaþega og útrásarvíkinga Sjálfstæðisflokks og Framsóknaflokks sé liðinn undir lok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×