Innlent

Sex ára drengur var stunginn og barinn

Drengurinn var stunginn með blýanti til blóðs í gegnum fötin. Atvikið átti sér stað á föstudegi en afleysingakennari tilkynnti það til skólayfirvalda á mánudegi.
Drengurinn var stunginn með blýanti til blóðs í gegnum fötin. Atvikið átti sér stað á föstudegi en afleysingakennari tilkynnti það til skólayfirvalda á mánudegi.

SKÓLAMÁL Sex ára drengur hefur orðið fyrir alvarlegu einelti af hendi annars drengs í Hamraskóla í Grafarvogi frá áramótum, að sögn föður þolandans. Drengur­inn hefur verið stunginn til blóðs með blýanti, barinn og klóraður svo á honum hefur séð. Faðir drengsins er óánægður með viðbrögð skólayfirvalda. Hann ákvað að senda drenginn ekki í skóla í gær, þar sem nóg væri komið af afskiptaleysi forráðamanna skólans, sem ylli því að drengurinn yrði að þola endurtekna líkamlega áverka, sem væru ekki síður andlegir, í kjölfarið.

„Drengurinn kom fyrst í skólann í janúar eftir að hafa búið í London með okkur foreldrunum,“ segir faðir­inn, sem biðst undan nafnbirtingu drengsins vegna. „Hann varð fljótlega fyrir áreiti af hendi jafnaldra síns. Þegar búið var að slá hann þrisvar í andlitið báðum við um fund með skólastjóranum og móður gerandans. Þau lofuðu bæði að tekið yrði á þessu. Gerandinn var síðan látinn hitta skólasálfræðing.

Síðan kemur að atvikinu sem drengurinn er stunginn til blóðs í bakið með blýanti. Þetta átti sér stað í skólastofunni. Afleysingakennari var þá að kenna bekknum. Hún skammaði gerandann, en tilkynnti atvikið ekki.“

Faðirinn segir að haldinn hafi verið annar fundur með skólastjóranum og þar verið ítrekað að þetta einelti gagnvart drengnum gengi ekki lengur, en ekkert hafi gerst.

„Hann kom heim fyrir um það bil tíu dögum með handlegginn allan rispaðan eftir árás af hendi hins drengsins. Svo næ ég í hann í skólann í dag og þá er búið að kýla hann í magann.

Nú er staðan sú, að það er búið að kýla hann níu sinnum, þar af einu sinni til blóðs í andlit, auk blýantsstungunnar og handleggsáverkans. Það er nákvæmlega ekkert gert. Þarna er verið að eyðileggja líf. Það ætlum við ekki að láta ná fram að ganga. Við ætlum ekki með drenginn aftur í skólann að óbreyttu.“

Foreldrarnir hafa leitað til menntamálaráðuneytisins, menntasviðs Reykjavíkur og fleiri vegna málsins.

Faðirinn segir aðstandendur hafa sótt drenginn í skólann á hverjum einasta degi. Það hafi ekki dugað til. Sleppa verði hendinni af honum þegar inn á skólalóðina sé komið og þá sé öryggi hans í höndum starfsmanna skólans. Það hafi brugðist.

„Drengurinn kemur heim og talar um gerandann. Hann dreymir hann á nóttunni. Honum líður hræðilega illa. Við erum ráðþrota.“ jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×