Lífið

Haukur Ingi snýr aftur á Anfield

Haukur Ingi og Ragnhildur Steinunn sjá Liverpool taka á móti Blackburn á Anfield Road um páskana.
Haukur Ingi og Ragnhildur Steinunn sjá Liverpool taka á móti Blackburn á Anfield Road um páskana.

„Það verður gaman að koma á fornar slóðir,“ segir knattspyrnukappinn Haukur Ingi Guðnason sem snýr aftur á sinn gamla heimavöll Anfield Road um páskana til að sjá fyrrum félaga sína í Liverpool taka á móti Blackburn. Kærastan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir verður með í för.

„Ég hef alltaf ætlað að reyna að fara reglulega og halda sambandi við liðið en ég hef ekki sjálfur komist í tæp þrjú ár. Hún hefur ekki farið síðan ég flutti heim 2001, þannig að það verður gaman fyrir hana að koma,“ segir Haukur Ingi. „Borgin er mjög breytt. Hún var menningarborg Evrópu í fyrra og miðbærinn er gjörbreyttur.“

Margt hefur einnig breyst í leikmannahópi Liverpool síðan Haukur var í liðinu. „Maður fer eflaust niður að hitta strákana eftir leik en það eru ekki margir eftir síðan ég var þarna, bara Hyypia, Gerrard og Carragher. Síðan er allt fólkið í kringum þetta sem er þarna ennþá sem verður gaman að hitta líka.“

Liverpool er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins einu stigi á eftir Manchester United og vonast Haukur að sjálfsögðu eftir fyrsta meistaratitli liðsins síðan 1990.

„Maður hefur ekki verið svona jákvæður í ansi mörg ár. Það er einhver stemning yfir þeim sem er mjög jákvæð en það er rosalega erfitt að segja. United eru ansi sterkir og eru ennþá með þetta í hendi sér. Þetta er svolítið undir United komið hvort þeir fara að misstíga sig meira.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.