Innlent

Slitlag komið á milli Egilsstaða og Reykjavíkur

Samfellt slitlag er komið á milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Norðurland og vantar nú aðeins að ljúka átta kílómetra kafla í Berufirði til að unnt verði að aka hring umhverfis Ísland á malbiki.

Þegar Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, markaði þá stefnu fyrir sautján árum að hefja átak í að byggja upp þjóðveginn um Hólsfjöll og Möðrudalsöræfi taldi hann raunhæft að ljúka malbikun hringvegarins fyrir aldamót. Allt hefur þetta gengið hægar en vonir manna stóðu þá til en þó hafa nú loks orðið þau tímamót að komið er á samfellt slitlag milli Egilsstaða og Mývatns og þar með Reykjavíkur og Neskaupstaðar um Norðurland. Síðasti kaflinn, brekkan ofan Skjöldólfsstaða á Jökuldal, kláraðist síðsumars.

Eftir að slitlag var í sumar lagt á kafla í Hamarsfirði, sunnan Djúpavogs, á nú aðeins eftir að malbika einn kafla í Berufirði, átta kílómetra langan, til að unnt sé að aka hring um landið á samfelldu malbiki, - reyndar ef ekið er Austfirðina um Reyðarfjörð, því 26 kílómetra langur kafli er enn eftir í Skriðdal og á Breiðdalsheiði á hinum eina sanna Hringvegi, þjóðvegi númer eitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×