Lífið

The Shins tekur breytingum

James Mercer Söngvari og lagahöfundur The Shins hefur gert mannabreytingar á sveitinni. Ný plata kemur út í byrjun næsta árs.Nordicphotos/Getty
James Mercer Söngvari og lagahöfundur The Shins hefur gert mannabreytingar á sveitinni. Ný plata kemur út í byrjun næsta árs.Nordicphotos/Getty

Hin vinsæla indípoppsveit The Shins er nú á tónleikaferðalagi um Bandaríkin eftir langt hlé. Öllum að óvörum hefur söngvarinn og lagahöfundurinn James Mercer skipt um mannskap í sveitinni.

Hljómborðsleikarinn Marty Crandall og trommarinn Jesse Sandoval eru horfnir á braut og nýir menn komnir í staðinn. Þeir eru bassaleikarinn Ron Lewis, úr Grand Arch­ives og Fruit Bats, og Joe Plummer, trommuleikari Modest Mouse.

„Ég var kominn með hugmyndir sem kröfðust nýs fólks,“ segir James Mercer um breytingarnar. Nýja mannaskipanin mun klára tónleikaferðina sem nú stendur yfir og taka upp plötu í kjölfarið. Stefnt er að því að platan komi út snemma á næsta ári. Mercer segist vera búinn að semja þrjátíu ný lög sem valið verður úr.

Platan verður gefin út af útgáfufyrirtæki Mercers, Aural Apothecary, en ekki er ólíkegt að Sup Pop muni dreifa henni. Mercer segir að ástæða þess að hann gefi út á eigin merki sé sú að þá fái hljómsveitin meiri peninga í eigin vasa.

James Mercer hefur í nógu að snúast þessa dagana. Hann gerir tónlistina við kvikmyndina 180 Degrees South með meðlimum Modest Mouse og leikur sjálfur í kvikmynd sem er væntanleg innan tíðar. Myndin kallast Some Days Are Better Than Others og leikur Mercer á móti Carrie Brownstein úr hljómsveitinni Sleater-Kinney.

„Það var mjög gaman og virðist hafa gengið ágætlega. Ég hef séð smá af myndinni og það var ekkert neyðarlegt að horfa á það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.