Innlent

Indriði H: Iceslave.is segir lítið um málið í heild sinni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Indriði H. Þorláksson
Indriði H. Þorláksson Mynd/ÞÖK
„Þessi tala sem þarna birtist segir afskaplega lítið um málið í heild sinni," segir Indriði H. Þorláksson, einn samningamanna Íslands í Icesave málinu, um Iceslave-skuldaklukkuna svokölluðu.

Tveir ungir menn, þeir Sævar Guðmundsson og Einar Björgvin Sigurbergsson, útbjuggu skuldaklukku sem mælir skuldir þjóðarbúsins vegna Icesave samningsins á heimasíðunni Iceslave.is.

Indriði segir upphæðir klukkunnar nærri lagi, en þykir þó sem ákveðnar upplýsingar vanti í myndina. Hann nefnir sem dæmi vextina sem eignir Landsbankans safna þar til greiðslufrestur ríkisins rennur út.

„Það er vitað mál að samningarnir hljóma upp á tiltekna fjárhæð og áður en kemur til greiðsluskyldu ríkisins koma eignir Landsbankans upp á móti skuldinni. Skilanefnd bankans ávaxtar þessar eignir og kemur þeim í verð svo þær skili sem mestu af sér," segir Indriði.

„Það koma mjög fljótlega fram ítarlegar upplýsingar um þetta mál sem ég held að séu fróðlegri og gagnlegri en það sem þarna kemur fram," segir Indriði að lokum, en tekur þó fram að heimasíðan sé í sjálfu sér snoturlega gerð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×