Lífið

Uppselt á tónleika Rökkurróar

Uppselt hefur verið á tvenna tónleika Rökkurróar, en hljómsveitin heldur alls 17 tónleika í Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Frakklandi, Danmörku og Sviss.
Uppselt hefur verið á tvenna tónleika Rökkurróar, en hljómsveitin heldur alls 17 tónleika í Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Frakklandi, Danmörku og Sviss.

„Þetta er alveg fáránlegt því við vorum að búast við um 30 manns," segir Árni Þór Árnasson, gítar- og bassaleikari í hljómsveitinni Rökkurró, um tónleika sveitarinnar í Hannover í síðustu viku. Þar mættu um 130 tónleikagestir og vísa þurfti 50 manns frá vegna plássleysis. Rökkurró heldur alls sautján tónleika á ferðalagi sínu um Evrópu og voru komin hálfa leið til Würzburg þegar blaðamaður náði tali af þeim á föstudag.

„Við erum búin með ferna tónleika og það hefur gengið langt fram úr björtustu vonum. Það var líka uppselt á tónleikunum okkar í Dresden þar sem við spiluðum í gömlu leikhúsi og við höfum aldrei spilað fyrir svona marga á Íslandi eins og við höfum gert hér að undanförnu," segir Árni. Aðspurður segir hann engan umboðsmann starfa fyrir sveitina. „Við erum með þýskan „booking agent" sem hefur bókað tónleikana, annars gerum við þetta bara sjálf og höfum verið að skipuleggja þennan túr frá áramótum.

Við erum þrjú í hljómsveitinni sem erum búin að missa vinnuna svo við höfum ágætis tíma til að standa í þessu," bætir hann við og segir hljómsveitarmeðlimi jafnvel hafa þurft að framleiða sjálf plötur til að selja á ferðalaginu. „Við erum tvisvar búin að selja upp diskana okkar og fáum ekki meira fyrr en á mánudag svo við enduðum á því að kaupa karton og vatnsliti og máluðum á diska sem við brenndum á tónleikastaðnum og seldum," útskýrir Árni ánægður með viðtökurnar.

„Það er engin afsökum fyrir íslensk bönd að túra ekki þó það sé kreppa. Eftir þennan túr verður auðveldara fyrir okkur að komast til stærri dreifingaraðila fyrir næstu plötu." -ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.