Innlent

Telja úrskurðinn ólögmætan

Vilhjálmur að samkvæmt stöðugleikasáttmálanum eigi að vera búið að ryðja öllum hindrunum úr vegi framkvæmda við Helguvík 1. nóvember.
Vilhjálmur að samkvæmt stöðugleikasáttmálanum eigi að vera búið að ryðja öllum hindrunum úr vegi framkvæmda við Helguvík 1. nóvember.

„Menn geta farið að verða atvinnulausir í boði umhverfisráðherra,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann segir allar tafir á stóriðjuframkvæmdum lengja og dýpka kreppuna.

SA telja að umhverfisráðherra hafi fellt ólögmætan úrskurð þegar hann felldi úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum á framkvæmdum tengdum álveri í Helguvík. Felli ráðherra úrskurðinn ekki úr gildi munu samtökin kvarta við umboðsmann Alþingis og/eða leita til dómstóla.

Samtökin telja úrskurðinn ólögmætan af þeirri ástæðu að hann er kveðinn upp löngu eftir að tilskilinn tímafrestur er útrunninn. Þar að auki hafi reglur stjórnsýslulaga um málsmeðferð og andmælarétt ekki verið virtar.

Vilhjálmur Egilsson segist ekki sjá við hvaða lagaheimildir ráðherra styðjist í úrskurði sínum. Spurður um dómstólaleiðina segir hann samtökin skoða það mál. Þá viti hann til þess að lögmenn þeirra fyrirtækja sem ákvörðunin varði geri það einnig.

„Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum átti að vera búið að fella allar hindranir úr vegi þessara fjárfestinga fyrir 1. nóvember. Þjóðhagsspá og allt sem gert er ráð fyrir í efnahagsáætlun næsta árs byggir á því að þessi verkefni fari á fullt.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×