Innlent

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkur betri en búist var við

Ráðhús Reykjavíkur. Mynd/GVA
Ráðhús Reykjavíkur. Mynd/GVA

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir fjármagnsliði fyrstu þrjá mánuði ársins er 567 milljón krónum betri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir samkvæmt tilkynningu frá borginni.

Nær öll svið Reykjavíkurborgar eru rekin innan fjárheimilda á fyrstu mánuðum ársins og skatttekjur borgarinnar eru yfir áætlun. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til mars 2009 sem lagður var fram í borgarráði í dag.

Þriggja mánaða uppgjörið staðfestir þar með það sem þegar hefur komið fram í mánaðarlegum rekstraryfirlitum sem kynnt hafa verið í borgarráði, að skatttekjur eru yfir áætlun og útgjöld undir áætlun.

Rekstrarniðurstaða A-hluta að teknu tilliti til fjármagnsliða var 122 milljón krónum betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, en hún var neikvæð um 619 milljón krónur. Áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 741 mkr. Ástæður þessa má einkum rekja til áhrifa verðbólgu á fjármagnslið Eignasjóðs og A-hluta.

A-hlutinn skiptist í Aðalsjóð og Eignasjóð. Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs fyrstu þrjá mánuði ársins var mun betri en áætlað var. Hins vegar var afkoma Eignasjóðs fyrir fjármagnsliði lakari en áætlun gerði ráð fyrir, einkum vegna minni tekna af sölu skipulagseigna en áætlað var eins og rakið er nánar hér á eftir.

Í skýrslu Fjármálaskrifstofu með árshlutareikningnum kemur fram að handbært fé í lok tímabilsins var 8.157 mkr en áætlun gerði ráð fyrir 8.125 mkr. Eiginfjárhlutfall A-hluta er samkvæmt uppgjörinu enn sterkt eða 64% í samanburði við 66% samkvæmt ársreikningi 2008. Veltufjárhlutfall er sömuleiðis mjög gott eða 1,61. A-hluti Reykjavíkurborgar sýnir þannig áframhaldandi mikinn fjárhagslegan styrk og gott greiðsluhæfi enda þótt gengis- og verðlagsbreytingar hafi aukið greiðslubyrði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×