Innlent

Niðurskurðurinn bitnar mest á öryrkjum

Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon

Öryrkjar eru uggandi um sinn hag og óttast frekari tekjuskerðingar en orðið hafa á árinu, segir Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ. Aðalstjórn bandalagsins sendi frá sér ályktun í gær þar sem hún mótmælir „harðlega að ríkisstjórnin, sem kennir sig við félagshyggju og jöfnuð, skuli áforma að halda áfram að skerða kjör öryrkja umfram aðra þegna landsins“. Guðmundur segir mjög hart fyrir öryrkja og aðra lífeyrisþega að þurfa að takast á við verri kjör auk þess sem þeir finni auðvitað líka fyrir hækkandi verði á neysluvörum og hærri afborgunum lána.

Í ályktuninni er bent á að bæði hafi lög, sem áttu að tryggja að lífeyrir hækkaði sem svaraði kjarasamningum eða framfærsluvísitölu, verið tekin úr sambandi um síðustu áramót og svo hafi tekjutenging verið aukin í sumar sem hafi skert bætur verulega.

Guðmundur segir við þetta bætast verðhækkanir á lyfjum sem hafi bitnað illa á öryrkjum. „Það er gengið harðar að öryrkjum og lífeyrisþegum en öðrum í samfélaginu,“ segir Guðmundur sem vonast til þess að fjárlagafrumvarpið verði öryrkjum og lífeyrisþegum hliðhollara eftir að félags- og tryggingamálanefnd hefur fjallað um það.

Alls eru öryrkjar á Íslandi um sextán þúsund og lífeyrisþegar yfir fjörutíu þúsund.- sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×