Innlent

Hugsanlega kosið um sameiningu Akureyrar og Grímseyjar í apríl

Samstarfsnefnd um sameiningu Akureyrarkaupstaðar og Grímseyjarhrepps vill að kosið verði um sameiningu samhliða þingkosningum í apríl næstkomandi. Líklegt er að sameiningin verði samþykkt.

Grímseyingar voru lengi vel tregir til að svo mikið sem ræða möguleikann á sameiningu við önnur sveitarfélög. Tekjur á hvern íbúa voru háar í eynni, enda gjöful fiskislóð í nágrenninu og eyjan rík af kvóta framan af. En nú hafa skilyrðin breyst. Eyjaskeggjar urðu fyrir áfalli þegar Brynjólfur Árnason sveitarstjóri, sem jafnframt gegndi stöðu oddvita, sveik stórfé út úr Grímseyjarhreppi. Sveitarstjórnarmönnum fannst sem ástæða væri til að endurskoða stjórnsýsluna í kjölfarið. Einnig er talið hafa skipt máli að töluverður kvóti hefur verið seldur úr eyjunni síðustu misseri.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í dag upplýsti Sigrún Björk Jakobsdóttir að samstarfsnefnd um sameiningu Akureyrarkaupstaðar og Grímseyjarhrepps legði til að kosið yrði með formlegum hætti um sameiningu Akureyrar og Grímseyjar 25. Apríl næstkomandi, samhliða þingkosningum.

Samkvæmt sveitarstjórnarmönnum bæði á Akureyri og í Grímsey eru taldar líkur á að sameining verði samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×