Innlent

Þingmönnum var stillt upp við vegg með Icesave samningnum

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Það eru margir óvissuþættir hvað varðar alla útreikninga á skuldbindingum Íslands vegna Icesave samningsins. Ég tel að þinginu hafi verið stillt upp við vegg með undirskrift fjármálaráðherra á samningnum," segir Pétur H. Blöndal, nefndarmaður í efnahags- og skattanefnd, og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Það er gífurleg áhætta undirliggjandi í samningnum og fjölmargir óvissuþættir. Seðlabankinn gerir til að mynda, ráð fyrir mjög myndarlegum hagvexti en það er bara skrifað í stjórnarráðinu eins og fleira. Sjálfur hefði ég viljað sjá útreikninga miðað við engan hagvöxt," segir Pétur.

Hann segir að þingið sé í raun bundið, eftir að fjármálaráðherra skrifaði undir samninginn. „Þingmönnum er stillt upp við vegg. Ef við fellum samninginn getur umheimurinn túlkað niðurstöðu okkar þannig að Íslendingar borgi ekki neitt og það eru mjög slæm skilaboð."

Aðspurður um hvað fjármálaráðherra hefði átt að gera, segir Pétur:

„Hann hefði einfaldlega ekki átt að skrifa undir og semja aftur. Það voru mikil mistök hjá stjórnarliðum hjá báðum flokkum að veita fjármálaráðherra heimild til að skrifa undir samning sem þingmenn flokkkanna höfðu ekki séð. Fjármálaráðherra virðist ekki hafa áttað sig á því hvað það eru margir vankantar í þessum samningi sem síðan eru að koma í ljós, en enn eru ekki öll kurl komin til grafar,“ sagði Pétur að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×