Innlent

Áhersla lögð á umferðaröryggi erlendra ferðamanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Helgason segir heilmargt gert til að kynna umferðaröryggi fyrir erlendum ferðamönnum. Mynd/ GVA.
Sigurður Helgason segir heilmargt gert til að kynna umferðaröryggi fyrir erlendum ferðamönnum. Mynd/ GVA.
Umferðarstofa vinnur markvisst að því að kynna öryggismál í umferðinni fyrir erlendum ferðamönnum á Íslandi. „Þetta hefur verið eitt af þeim atriðum sem hefur verið áhersluatriði í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Við auðvitað framfylgjum henni og teljum að með því séum við að gera tvennt, að auka umferðaröryggi og líka að vissu leyti að styrkja og bæta hag íslenskrar ferðaþjónustu," segir Sigurður Helgason hjá umferðarstofu.

Sigurður bendir á að gefinn hafi verið út bæklingur í áraraðir sem hafi verið dreift til erlendra ferðamanna. Bæklingnum hafi verið dreift í tugþúsundum eintaka, en hann sé að þessu sinni unnin í samstarfi við Vegagerðina, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og umhverfisstofnun. „Síðan var gert hér myndband á fjórum tungumálum um það sem er sérstakt eða öðruvísi fyrir erlenda ökumenn," segir Sigurður. Myndbandinu hafi verið dreift víða um heim, t.d. á vefsíðum erlendra ferðaskrifstofa. Þá hafi verið gerð sérstök stýrisspjöld í samstarfi við bílaleigurnar þar sem komið er á framfæri nokkrum punktum.

Fyrir fáeinum árum var mikil umræða um umferðaröryggismál erlendra ferðamála hér á landi og rætt var um hátt hlutfall erlendra ferðamanna sem lentu í alvarlegum slysum. „Sannast sagna þá var ástandið betra í fyrra en oft áður en það má kannski segja að þegar einn sem lætur lífið af átta er útlendingur að þá er það orðið svolítð hátt hlutfall," segir Sigurður og bendir á að í fyrra hafi tveir af þeim tólf sem létust verið útlendingar. Það jafngildi því að útlendingar hafi verið sjötti hluti af þeim sem létust.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×