Lífið

Pólskur sjónvarpskokkur tekur upp efni á Íslandi

Ferðast um allan heim Sjónvarpskokkurinn Robert Maklowicz er nú staddur hér á landi í tengslum við pólska daga og tekur upp þrjá sjónvarpsþætti.
Ferðast um allan heim Sjónvarpskokkurinn Robert Maklowicz er nú staddur hér á landi í tengslum við pólska daga og tekur upp þrjá sjónvarpsþætti.

„Þú getur spurt hvaða Pólverja sem er um Robert, það þekkja hann allir," segir Michal Gierwatowski, vararæðismaður Póllands, um pólska sjónvarpskokkinn Robert Maklowicz. Hann er nú staddur hér á landi í tengslum við pólska daga og hefur hannað pólskan matseðil fyrir Brasserie Grand auk þess sem hann tekur upp þrjá þætti fyrir sjónvarpsseríu sína.

„Í þáttum sínum ferðast Robert til hinna ýmsu landa, kynnir matarmenningu hvers lands og eldar á framandi stöðum. Þættirnir hans eru sýndir á stöð 2 í Póllandi tvisvar í viku og eru mjög vinsælir. Hann ætlar að taka upp einn þátt í Reykjavík, einn við Bláa lónið og einn við Gullfoss og Geysi, auk þess sem hann ætlar að heimsækja Íslendinga og Pólverja hér á landi til að sjá hvað er líkt og ólíkt í matarmenningu þeirra," útskýrir Michal. Gert er ráð fyrir að þættirnir verði sýndir í Póllandi í ágúst.

Annað kvöld verður stærsti viðburður pólskra daga og þá verður gala-kvöldverður á Grand hóteli með klassískum tónleikum, en 3. maí er þjóðhátíðardagur Pólverja. Stefán Þór Arnarson, veitingastjóri Brasserie Grand, segir Róbert vera búinn að setja þjóðlega pólska rétti í nýstárlegan búning, en á matseðlinum er meðal annars rauðrófusúpa, nautakjöt, bleikja, og fjórir mismunandi eftirréttir.

„Allir þekkja franska og ítalska matarmenningu, en þarna teygjum við okkur til Austur-Evrópu sem er ekki síður spennandi. Róbert er snillingur í sínu fagi og hérna langar hann náttúrulega að vinna úr hráefninu okkar eins og lambakjötinu, fiskinum og svo langar hann að elda hvalkjöt," segir Stefán. - ag










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.