Erlent

Aftöku frestað vegna örðugleika

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Romell Broom.
Romell Broom. MYND/Ohio Dept. of Rehabilitation & Correction

Fresta þurfti aftöku dauðadæmds manns í Ohio þar sem ekki tókst að sprauta hann með banvænu eitri.

Þegar komið var að því að taka hinn 53 ára gamla Romell Broom, sem fundinn var sekur um nauðgun og morð, af lífi með banvænni sprautu í fangelsinu í Lucasville í suðurhluta Ohio í gær tókst þeim sem annaðist verkið engan veginn að finna nógu burðuga æð í Broom til að hægt væri að sprauta hann eftir að reynt hafði verið í tvær klukkustundir.

Í fyrsta sinn í sögu Ohio var aftöku því frestað vegna tæknilegra örðugleika og gaf ríkisstjórinn vikufrest til að leysa málið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem illa gengur að taka dauðadæmda fanga af lífi í Ohio, í maí 2006 reis fanginn Joseph Clark upp og sagði viðstöddum að lyfin virkuðu ekki. Julie Walburn, talskona fangelsisins, segir mál Brooms fordæmislaust. Samkvæmt lögum Ohio skuli fangar teknir af lífi með banvænni sprautu og þannig eingöngu.

Lögmaður Brooms hefur skrifað hæstarétti Ohio um málið og vill fá aftökunni frestað af mannúðarástæðum. Framhaldið ræðst á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×