Innlent

Haförn í læknisaðgerð

Haförninn í Húsdýragarðinum gekkst undir læknisaðgerð í dag þar sem gröftur var kreistur úr stóru kýli. Örninn þarf að vera á lyfjakúr næstu fimm daga en vonast er til að hann geti flogið út í frelsið á ný innan tveggja vikna.

Þeir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, hafarnasérfræðingur Náttúrufræðistofnunar, og Hilmar Össurarson, dýrahirðir í Húsdýragarðinum, hjálpuðust að við að halda erninum meðan Katrín Harðardóttir dýralæknir sprautaði sótthreinsivökva í graftrarkýlið. Svo byrjaði Katrín að kreista.

Örninn fannst illa haldinn við Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi fyrir rúmri viku og telur Kristinn Haukur að hann hefði drepist ef Bjarnarhafnarmenn hefðu ekki komið honum til bjargar. Vegna graftrarkýlisins er hann ófleygur en Kristinn telur hugsanlegt að hann hafi særst í loftbardaga við annan örn.

Þetta er fimm ára kvenfugl og það heyrðist ekki múkk frá össu meðan á aðgerðinni stóð. Hún reyndi hins vegar að bíta frá sér þegar hún var flutt aftur í búrið sitt. Svo horuð var hún að þriðjung vantaði upp á eðlilega líkamsþyngd þegar hún fannst. Það þykir góðs viti að hún étur vel.

Eftir viku vonast Kristinn til að unnt verði að færa örninn í útibúr og sleppa honum síðan útí frelsið á Snæfellsnesi innan tveggja vikna.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×